Miðjumaðurinn Xabi Alonso fór í aðra myndatöku í dag eftir að hann meiddist á ökkla í leiknum gegn Portsmouth í gær, en þá kom í ljós að meiðsli hans eru ekki jafn alvarleg og óttast var í fyrstu og því gæti farið svo að hann yrði klár í slaginn í bikarúrslitaleiknum um næstu helgi.
Alonso var borinn af velli í leiknum í gær og óttuðust menn að hann næði sér ekki í tæka tíð fyrir úrslitaleikinn í enska bikarnum gegn West Ham um næstu helgi. Myndatakan í dag leit þó mun betur út og nú er leikmaðurinn bjartsýnn á að ná sér fyrir helgi.
"Þegar ég meiddi mig fyrst, óttaðist ég að þetta væru mun alvarlegri meiðsli en raun bar vitni, en nú er ég orðinn nokkuð bjartsýnn á að geta verið með um helgina. Það eina sem ég get gert núna er að vera rólegur og vona það besta," sagði Spánverjinn.