Innlent

Verðbólguþróun á næstunni ráði miklu um upptöku evrunnar

MYND/AP

Framkvæmdastjórar Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins eru sammála um að þróun verðbólgunnar næstu misseri ráði miklu um það hvort evran verði tekin upp í stað krónunnar hér á landi.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins voru gestir á Fréttavaktinni fyrir hádegi í dag. Samtökin tvö stóðu fyrir morgunverðarfundi þar sem spurt var hvort evran væri svarið við efnahagssveiflum hér á landi, en raddir þar að lútandi hafa orðið háværari síðustu vikur vegna skarprar lækkunar á gengi krónunnar.

Samtök iðnaðarins hafa lengi talað fyrir Evrópusambandsaðild og segir Sveinn Hannesson að verðbólguþróun á næstunni ráði miklu um það hvort alvara færist í umræðuna um upptöku evru. Sveinn segir enn fremur að ef það stefni í gamla verðbólguvandamálið þá muni umræða eflaust magnast mjög um evruna.

Vilhjálmur Egilsson bendir á að efnahagslífið hafi lent mjúklega fyrir þremur til fjórum árum og því verði að gefa krónunni tækifæri aftur nú. Stærsta prófið sé nú fram undan. Menn horfi á niðursveiflu á næsta ári og ef ekki takist að ná verðbólgunni niður þá sé spurning hvort krónan sé fallin á prófinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×