Innlent

Norræn samkeppni í stað samvinnu

Norræn samvinna vék fyrir norrænni samkeppni í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld þar sem Magnus Carlsen tryggði sér sigur á Glitnismótinu í hraðskák. Norska undrabarnið lagði Hannes Hlífar Stefánsson í úrslitum.

Það var rafmagnað andrúmsloft í Ráðhúsinu þegar Jóhann Hlífar og Magnus gengu til úrslitaviðureignarinnar á Glitnismótinu í skák. Báðir höfðu þeir lagt hvern skáksnillinginn af öðrum á leið sinni í úrslit. Hannes Hlífar vann Tatíönu Vasilevich í fjórðungsúrslitum og Emil Sutovsky í undanúrslitum en Magnús Carlsen lagði Ísraelann Sergey Erenburg í fjórðungsúrslitum og gerði sér svo lítið fyrir og skellti Vishy Anand, heimsmeistara í hraðskák í undanúrslitum.

Í hraðskák hafa menn fimm mínútur til að gera út af við andstæðinginn en Carlsen þurfti ekki nema helming þess tíma til að vinna fyrstu skákina við Hannes Hlífar en seinni skákin var mjög spennandi þar sem bæði Hannes og Magnus voru við það að renna út á tíma. Svo fór að tími Hannesar rann út á undan og Magnus því sigurvegari á Glitnismótinu.

Saga Magnusar Carlsen er ótrúleg. Hann varð fyrir rúmum tveimur árum yngsti stórmeistari sögunnar, þá aðeins þrettán ára gamall, en hann er nú í 89. sæti á lista Alþjóðaskáksambandsins yfir sterkustu skákmenn heims. Þess má til gamans geta að fyrir tveimur árum. 17. mars 2004, sigraði Magnus ekki ómerkari mann en Anatólí Karpov, fyrrverandi heimsmeistara í skák, í undanrásum hraðskákmóts hér á landi en varð svo að játa sig sigraðan í næstu umferð þar sem hann mætti heimsmeistaranum Garry Kasparov.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×