Innlent

Ratsjárstöðvum lokað innan tíðar

Ratsjárstöðin á Stokksnesi.
Ratsjárstöðin á Stokksnesi.

Margt bendir til þess að ratsjárstöðvunum hér á landi verði lokað innan tíðar því hernaðarlegum tilgangi þeirra lýkur í raun þegar herþoturnar verða fluttar frá Keflavíkurflugvelli í haust.

Þegar stöðvarnar fjórar voru reistar með ærnum kostnaði undir lok níunda áratugar síðustu aldar var yfirlýstur tilgangur þeirra annarsvegar að fylgjast með flugi óvinveittra flugvéla, sem eru hættar að koma hingað eftir fall Sovétríkjanna, og hinsvegar að fylgjast með flugi herþotna frá Keflavíkurflugvelli, sem nú eru á förum.

Stöðvarnar eru á Bolafjalli á Vestfjörðum, Gunnólfsvíkurfjallli á Noðrausturlandi, Stokksnesi við Hornafjörð og á Miðnesheiði, þaðan sem þeim er nú stjórnað. Flugmálastjórn hefur nú afnot af sjálfri ratsjármynd kerfisins vegna almenns flugs, en herinn er ekki bundinn af því að tryggja þá þjónusut, ef hann vill loka stöðvunum.

Þá eru tveir kostir í stöðunni fyrir flugmálastjórn, að koma upp nýjum og margfalt einfaldari ratstjám, eða taka við rekstri núverandi ratsjárstöðva. Það er hinsvegar afar ólíklegt því rekstur ratsjárstöðvanna kostar herinn vel á annan milljarð króna á ári.

Það er einmitt líklegt að þessi kostnaður, sem innan tíðar kemur hernum að litlu eða engu gagni, knýji á um lokun stöðvanna líkt og þegar herinn hætti rekstri á ratsjárstöðvum á Staraumnesfjalli á Vestfjörðum og á Heiðarfjalli á Langanes fyrir 45 árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×