Erlent

Ísraelar hætta að sprengja í Líbanon á mánudag

Ísraelar segjast ætla að hætta hernaðaraðgerðum í Líbanon á mánudag. Þeir sækja nú fram með mikinn liðsafla að Litani-ánni, sem skilur að norður- og suðurhluta landsins, þrátt fyrir ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi um vopnahlé. Að minnsta kosti tuttugu Líbanar létu lífið í árásum Ísraela í dag og sjö ísraelskir hermenn féllu í átökum við Hizbolla-skæruliða.

Leiðtogi Hizbolla tilkynnti í dag að skæruliðasamtökin muni virða ályktunina og hætta hernaðaraðgerðum.

Í ályktun Öryggisráðsins er kveðið á um að fullt og algjört vopnahlé skuli virt af báðum aðilum. Þá er áætlað að 15 þúsund friðargæsluliðar verði sendir til Líbanons þegar friði hefur verið komið á og að Ísraelar dragi landher sinn að fullu út úr Líbanon.

Leiðtogi skæruliða Hizbollah, Hassan Nasrallah, lýsti því yfir í sjónvarpi að Hizbollah muni virða ályktun Öryggisráðsins um að leggja niður vopn. Hins vegar tekur hann einnig fram að Hisbollah muni halda áfram árásum sínum svo lengi sem ísraelskir hermenn eru í Líbanon.

Ísraelar hafa þrefaldað herlið sitt í Líbanon og var tilkynnt í ísraelsku útvarpi í dag að einhverjir hermannanna hafi þegar náð Litani-ánni sem Ísraelar hafa tilkynnt sem ásættanleg mörk öryggissvæðis síns. Heryfirvöld hafa ekki viljað staðfesta fjölda hermanna sem nú eru í Líbanon en samkvæmt heimildum BBC munu þeir vera um 30 þúsund.

Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, tilkynnti nú rétt fyrir fréttir að herferð Ísraela gegn Hisbollah muni líklega ljúka á mánudaginn. Hún sagði að heryfirvöld í Ísrael hefðu beðið um aukatíma til að ganga almennilega frá ætlunarverki sínu og sagði að herinn myndi fá þann tíma sem til þyrfti, sem væri líklega ekki lengur en fram á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×