Innlent

Fyrsti hluti lóðar verður ekki boðin út

Urgur er í verktökum í kjölfar frétta um að semja eigi útboðslaust um fyrsta hluta lóðaframkvæmda við Tónlistar- og ráðstefnuhússins við Reykjavíkurhöfn. Þeir vilja þó ekki gagnrýna borgaryfirvöld opinberlega, af ótta við að verða settir út í kuldann.

Á fimmtudaginn tekur borgarráð fyrir tillögu, um hvort semja eigi beint við Íslenska aðalverktaka um fyrsta hluta lóðaundirbúnings vegna fyrirhugaðs tólnlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn. Eins og fram hefur komið í fréttum okkar á borgin að skila lóðinni í haust, og áætlar borgin að það kosti einn komma tvo, til einn komma fjóra milljarða króna, að gera lóðina klára. Heimildamenn fréttastofu telja þó, að þessi upphæð geti orðið nokkru hærri, jafnvel allt að tveimur milljörðum króna. Verkinu verður skipt upp og fyrsti hlutinn, sem borgin áætlar að kosti um 400 milljónir, kemur útboðslaust í hlut Íslenskra aðalverktaka.

Samkvæmt lögum um opinber innkaup, er almenna reglan sú að bjóða þarf út verk fyrir tíu milljónir eða meira. Á þessu geta þó verið undantekningar samkvæmt lögunum, til dæmis ef aðeins einn aðili getur unnið verkið af tæknilegum ástæðum eða listrænum ástæðum. Þessari undanþágu beitir borgin varðandi þennan fyrsta, 400 millljóna króna hluta lóðaframkvæmdanna.

Fréttastofa hefur rætt við nokkra verktaka í dag, bæði stóra og smáa, sem segja þetta verk svo stórt í sniðum og fjölþætt að undarlegt sé að semja útboðslaust við Aðalverktaka. Útboðsviðmiðið sé tíu milljónir, en hér sé um fjörtíu sinnum stærra verk að ræða.

Enginn þeirra vildi þó koma fram í mynd og ástæðan var gjarnan sögð sú að þeir þyrftu að geta átt viðskipti við borgina í framtíðinni. Þá segja þeir líka merkilegt, að ekki sé lokið við að kaupa upp öll þau mannvirki sem eiga að víkja fyrir Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu. Steinun Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri sagði hins vegar í fréttum okkar í gær, að eðlilegar ástæður séu til þess fyrsti hluti lóðaframkvæmdanna var ekki boðin út, og benti á að afgangurinn af lóðaframkvæmdunum verk upp á 800 til þúsund milljónir fari í útboð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×