Innlent

Forsetahjónin heimsóttu Grundaskóla

Ólafur Ragnar Grímsson forseti.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsóttu Grundaskóla á Akranesi í morgun. Forsetahjónin kynntu sér starfsemi skólans, en hann fékk Íslensku menntaverðlaunin í fyrra fyrir að sinna nýsköpunarstarfi vel.

Það ríkti mikil eftirvænting meðal nemenda og starfsfólks Grundaskóla þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsóttu skólann í morgun. Forsetahjónin kynntu sér starfsemi skólans og gengu á milli bekkjarstofa. Meðal þess sem vakti athygli Ólafs Ragnars og Dorritar var kennsla í skyndihjálp og æfðu nokkrir nemendur sig á því að taka púlsinn á forsetafrúnni. Mesta athygli forsetans vakti þó kennsla um Leif heppna og ræddi hann lengi við börnin um Guðrúnu Þorbjarnardóttur sem hann sagði að sínu mati mesta kvenkyns landkönnuð mannkynssögunnar.

"Ég hef stundum sagt að það hafi verið mikil umræða um háskólastigið og framhaldsskólastigið og við höfum kannski vanrækt að skoða það mikla nýsköpunarstarf og það merka starf sem unnið er í grunnskólunum. Það sjáum við í Grundaskóla hér í dag," sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti eftir að hafa litið á skólastarfið.

Forsetinn sagði gaman að kynnast því hvernig bekkjum væri blandað saman, þannig að nemendur úr nokkrum bekkjum væru saman í sumum tímum og með öðrum nemendum í öðrum tímum. Það vakti áhuga forsetans að verið var að kenna börnunum fornsögurnar og söguna af Leifi Eiríkssyni. "Þegar ég var í skóla var það ekki gert fyrr en ég var kominn í menntaskóla, þannig að það er greinilega búið að flytja stóran hluta af þeirri umfjöllun sem áður var í menntaskólum inn í grunnskólann og það virðist bara ganga mjög vel."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×