Erlent

Pútín og Bush ræddu málefni Írans í síma í dag

MYND/Reuters

Vladímír Pútín Rússlandsforseti og George Bush, forseti Bandaríkjanna, ræddust í dag í síma um fyrirhugaða atkvæðagreiðslu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um refsiaðgerðir gagnvart Írönum vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.

Eins og fram kom í fréttum fyrr í dag greiðir öryggisráðið atkvæði í dag um ályktunartillögu um refsiaðgerðir á hendur Írönum sem hafa neitað að hverfa frá auðgun úrans eins og Vesturveldin hafa farið fram á. Óttast þau að Íranar geti komið sér upp kjarnavopnum.

Það var talsmaður stjórnvalda í Kreml sem greindi frá símafundinum en hann sagði ekki nánar frá efnisatriðum samtalsins. Rússar hafa hingað til ekki viljað samþykkja ályktunartillögu gagnvart Írönum og hefur tillögunni ítrekað verið breytt til þess að koma til móts við kröfur Rússa sem eiga í samstarfi við Írana um uppbyggingu kjarnorkuvers í Íran.

Tillagan gerir meðal annars ráð fyrir banni við sölu á tækni og efnum tengdum kjarnorkuframleiðslu til Írana ásamt því að frysta eignir 11 manna og 12 félaga frá Íran til þess að koma í veg fyrir þau verði sér úti um hættuleg efni. Það er við síðarnefndu þvingunina sem Rússar gera athugasemdir við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×