Innlent

Miklar tafir á umferð í morgun

MYND/GVA

Þúsundir manna komu of seint til vinnu sinnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun vegna mikillar ófærðar. Miklar tafir voru í umferðinni og langar raðir bíla voru á öllum helstu stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Engin óhöpp urðu þó í Reykjavík og aðeins þrír minniháttar árekstrar urðu í Hafnarfirði en ekki er hægt að rekja umferðartafirnar til þeirra. Dæmi eru um að fólk hafi verið allt að eina og hálfa klukkustundu á leiðinni frá Hafnarfirði til Reykjavíkur.

Miklum snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga, eftir fremur snjóléttan vetur. Ökumenn virðast ekki alveg hafa verið undir ófærðina búnir og á háannatímanum milli klukkan átta og níu fylltust allar stofnæðar á misvel búnum bílum. Á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar mátti sjá bílalestina ná frá Háaleitisbraut að Hringbraut. Umferðin gekk hægt enda þungfært og mikill snjór á götunum. Flestir voru þó rólegir og fóru varlega. Margir voru að verða of seinir til vinnu eða annarra athafna.

Margir festu bíla sína og almennt ók fólk hægt vegna hálku. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill minna fólk á að nú sé janúar en ekki júlí og gera megi ráð fyrir mikilli umferð á há annatímum. Fólk ætti því að leggja fyrr af stað en ella á morgnana ef það vill koma á réttum tíma á áfangastað. Veður verður óbreytt á höfuðborgarsvæðinu í dag. En í fyrramálið má búast við snjókomu eða slyddu og síðan rigningu eftir hádegi. Færð getur því verið erfið í fyrramálið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×