Færeyska þingið samþykkti í gær með sautján atkvæðum gegn þrettán að gera það ólöglegt að hæða eða niðurlægja samkynhneigða á grundvelli kynhneigðar þeirra, að því er fram kemur í frétt Politiken.
„Stór hluti Færeyinga hefur áratugum saman haldið að mannréttindi gangi gegn kristni. Með þessari ákvörðun eru í fyrsta sinn í færeyskri sögu send svo sterk skilaboð um að við viljum umburðarlynt samfélag,“ sagði Finnur Helmsdal, einn þeirra þingmanna sem lögðu frumvarpið til.
Færeyjar voru síðasti staðurinn í Norður-Evrópu þar sem ekki var bannað með lögum að áreita samkynhneigða.