Innlent

Litlu munaði að eldsprenging yrði á Laugavegi í gær

Aðeins munaði örfáum mínútum að eldur, sem kviknaði í risíbúð við Laugaveg í Reykjavík í gærkvöldi, ylli eldsprengingu og miklu eldhafi, sem hefði ógnað nærliggjandi húsum. Slökkviliðsmenn telja að hitinn í íbúðinni í gærkvöldi hafi verið orðinn 500 til 600 gráður.

Guðmundur Halldórsson varðstjóri, sem stjórnaði slökkvistarfinu segir að ekki hafi mátt tæpara standa því yfirtendrun hafi orðið í eldhúsinu, þar sem eldurinn logaði, en hún verður ekki nema við nokkur hundruð gráða hita. Við þær aðstæður brenna allar gufur sem leggur fá innanstokksmunum, jafn óðum og að sjálfsögðu allt súrefni í rýminu.

Fjórum reykköfurum tókst að skríða inn í eldhúsið og slá á eld og hita og gekk slökkvistarf vel úr því. Enginn var í íbúðinni þegar eldurinn kom upp og aðrir íbúar hússins forðuðu sér út. Múrhúð í eldhúsinu kom í veg fyrir að eldurinn næði upp í þakið, en þá hefði eldurinn náð mikilli útbreiðslu á svipstundu og nálægum húsum stafað hætta af neistaflugi, því hvasst var í veðri.

Allt innanstokks í íbúðinni er ónýtt og einhverjar skemmdir urðu í annari íbúð í húsinu, en eldsupptök eru ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×