Innlent

Tugmilljarða tekjuauki útgerðarinnar

Tekjur útgerða landsins af útflutningi sjávarafurða á ársvísu hafa aukist um fjörutíu milljarða króna vegna veikingar krónunnar frá áramótum.

Útflutningsgreinarnar, sem hafa kvartað undan of háu gengi undanfarin misseri og ár, hafa ástæðu til að gleðjast þessa dagana. Krónan fellur í verði og því aukast útflutningstekjurnar. Fyrir hvert eitt prósent sem gengi krónunnar fellur um aukast tekjur útgerðarinnar um tvo milljarða króna. Vísitala krónunnar hefur fallið um rúm tuttugu prósent og samkvæmt því hækka útflutningstekjur sjávarútvegsins um rúma fjörutíu milljarða króna. Ofan á þetta bætist að afurðaverð á erlendum mörkuðum hefur hækkað að undanförnu.

Þetta er þó ekki svo einfalt að með þessu vænkist hagur útgerðarinnar um fjörutíu milljarða króna. Olíuverðið eitt og sér hefur hækkað um tvo milljarða króna á ársgrundvelli frá áramótum. Erlendar skuldir útgerðarinnar aukast einnig, auk þess sem ýmis aðföng verða dýrari. Sjómenn fá líka meira fyrir aflann en áður. Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna ákvað á dögunum að aflaverð sjómanna fyrir þorsk, ýsu og karfa hækki um fimm prósent. Það er ekki fyrsta hækkun ársins. Allar þessar tegundir hafa hækkað áður og karfi sínu mest, eða um rúm þrjátíu prósent frá áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×