Innlent

Verðbólguhætta ef allir vilja hærri laun

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir

Samkomulag Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og ríkisins sem koma átti í veg fyrir yfirvofandi uppsögn kjarasamninga gæti haft öfug áhrif en ætlað var ef önnur stéttarfélög krefjast þess að starfsmenn þeirra njóti sömu hækkana á launum. Þetta segja fulltrúar frá ASÍ og SA, en í samkomulaginu kveður á um 5,5 prósenta launahækkun fyrir þá sem ekki hafa fengið slíka hækkun seinasta árið. Einnig var samið um sérstaka fimmtán þúsund króna launahækkun ofan á lægstu kauptaxta.

Tilgangurinn með þessum samningum um fimmtán þúsund króna launahækkunina var að jafna þá launataxta sem SA hefur samið um við helstu verkalýðsfélögin við þá taxta sem BSRB hafa samið um við ríki og sveitarfélög, segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Staðreynd málsins er sú að ríki og stéttarfélög sem semja við ríkið hafa verið launaleiðandi þrátt fyrir að í flestum öðrum löndum sé það almenni markaðurinn sem skilgreinir svigrúm til launahækkana. Með þessu samkomulagi er verið að gera tilraun til þess að stilla þetta af en ef aðrir fara að krefjast þess að fá það sama þá erum við bara að elta skottið á okkur.

Á dögunum var samþykkt að starfsmenn Íslandspósts fengju sömu hækkun og samið var um milli SA og ASÍ, eða 15 þúsund krónur á mánuði. Íslandspóstur hefur verið í svipaðri stöðu og þessir lágmarkstaxtar sem SA var að hækka og er nú verið að hækka þá þannig að þeir séu svipaðir lágmarkstöxtunum sem eru í gildi hjá SA, segir Hannes um þær hækkanir.

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, segir mikilvægt að stéttarfélög taki þátt í að ná þeim markmiðum sem sett voru með samkomulaginu en stuðli ekki að verðbólgu með því að krefjast sömu hækkana.

Það er alveg ljóst að ef allir vilja fá fimmtán þúsund kallinn, án tillits til þess sem þeir hafa nú, þá mistekst þessi aðgerð. Ef þetta á að takast þá verða allir að taka þátt. Það geta ekki allir fengið þennan fimmtán þúsund kall, segir Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×