Innlent

Fylgi við aðild Íslands að ESB minnkar

MYND/Reuters

Færri segjast hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu en undanfarin ár, samkvæmt nýrri Gallup-könnun. Þeim sem vilja taka upp evruna fjölgar hins vegar töluvert frá síðustu könnun.

Könnunin var gerð fyrir Samtök iðnaðarins á tímabilinu 21. febrúar til 3. mars. Úrtak könnunarinnar var rúmlega 1290 manns á aldrinum 16 til 75 ára og var valið handahófskennt úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 62 prósent.

Tæplega 41 prósent þeirra sem tóku afstöðu eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu, 38 prósent eru andvíg en 21,5 prósent svara hvorki né. Fylgi við aðild Íslands er ívið minna en það hefur mælst í könnunum Gallups undanfarin ár en hæst fór fylgið í tæp 52 prósent í febrúar 2002.

Þegar spurt var um afstöðu til aðildarviðræðna við ESB segjast ríflega 50 prósent aðspurðra hlynntir viðræðum, 34,6 prósent eru andvígir og 15 prósent svara hvorki né. Fylgi við aðildarviðræður hefur farið sífellt minnkandi undanfarin ár en árið 2003 mældist það rúm 64 prósent.

Þá var spurt í könnun Gallup hvort fólk væri fylgjandi því að taka upp evruna sem gjaldmiðil hér á landi, og tóku mun fleiri afstöðu til þess en hvað varðar aðild og aðildarviðræður við Evrópusambandið. 42,5 prósent sögðust hlynnt því, tæp 48 prósent voru andvíg því að taka upp evruna en tíu prósent aðspurðra svöruðu hvorki né.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×