Innlent

Flugmálastjórnir settar undir einn hatt

Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli verður lögð niður í núverandi mynd og starfsemi hennar flutt undir Flugmálastjórn Íslands. Samgönguráðherra segir hægt að ná fram mikilli hagræðingu með þessum hætti en segir þetta ekki þurfa að hafa mikil áhrif á það fólk sem þar vinnur.

Dagar Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli sem sjálfstæðrar einingar virðast vera taldir nú þegar bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt um brotthvarf herþotnanna sem þar hafa verið. Völlurinn hefur verið rekinn sem sjálfstætt flugstjórnarsvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Það hefur sætt nokkurri gagnrýni Alþjóða flugmálastofnunarinnar sem hefur mælst til þess að Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli verði flutt undir Flugmálastjórn Íslands, en sú stofnun ber ábyrgð á flugöryggismálum gagnvart alþjóðastofnuninni.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að brotthvarf Bandaríkjahers hefði mikil áhrif á starfsemi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Sturla segir að hagræða megi verulega með sameiningu flugmálastjórnanna tveggja. Hann segir það fyrst og fremst snúa að yfirstjórn og þurfi ekki að hafa áhrif á fólk sem vinnur þar við rekstur flugvallarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×