Erlent

STASI-aðferðir í Svíþjóð

Sænsk skattayfirvöld hafa verið sökuð um að beita STASI-aðferðum við að koma höndum yfir þá sem stunda svarta vinnu. Þau ætla að reiða sig á uppljóstrara. Áætlað er að um 1000 milljarðar íslenskra króna séu borgaðar undir borðið á ári hverju í Svíþjóð. Miðað við skattprósentuna er ríkiskassinn að verða af hundruðum milljóna króna. Á þessu á nú að taka. Undafarin ár hafa skattayfirvöld fengið mörg hundruð ábendingar á ári um fólk sem sagt er stunda svarta vinnu. Skattayfirvöld hafa leitt þessar ábendingar hjá sér á þeim forsendum að þarna væri mest um að ræða fólk sem væri annað hvort öfundsjúkt eða þá að hefna sín. Klögumálin urðu þó smám saman svo mörg að ekki þótti annað hægt en að skoða þetta nánar. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að svo mörg mál ættu við rök að styðjast að ekki yrði hjá því komist að grípa til aðgerða. Í þeim aðgerðum ætla skattayfirvöld einkum að reiða sig á uppljóstrara. Það hefur mælst illa fyrir hjá mörgum sem segja að þessi vinnubrögð minni á STASI, austurþýsku öryggislögregluna, sem náði árangri með því að láta nágranna, og jafnvel fjölskyldumeðlimi, njósna hver um annan. Skattayfirvöld í Svíþjóð hafna þessum rökum og segja að menn eigi að gjalda keisaranun það sem keisarans er. „Skattmann“ býst þó ekki við að aðgerðirnar geri meira en að rispa toppinn á ísjakanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×