Erlent

Styrkur Golfstraumsins hefur minnkað um 30%

Golfstraumurinn hefur veikst um 30 % á síðustu fimmtíu árum, samkvæmt nýjasta tölublaði vísindaritsins Nature.

Haffræðingurinn Harry Bryden hjá Haffræðimiðstöð Breta (National Oceanography Centre) í Southampton og rannsóknarhópur hans mældu meðal annars vatnshita og saltmagn á 50 kílómetra bili eftir 25. breiddargráðu frá Bahamas eyjum til Kanaríeyja. Svipaðar mælingar hafa verið gerðar frá 1957. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að styrkur Golfstraumsins hefði minnkað um 30% síðustu 50 árin og að hluti hans væri fastur í hringiðu í sunnanverðu Atlantshafi í stað þess að fara alla leið norður til Íslands og Grænlands.

Rannsóknin er þó ekki sönnun um langtímaáhrif. Hringiður og eðlilegar sveiflur í styrkleika straumsins gætu útskýrt þessar niðurstöður segir Jochem Marotzke, haffræðingur í Max Planck veðurfræðistofnuninni í Hamborg. Þá eru líkur á skyndilegu hruni hringrásarinnar litlar.

Skynjurum sem skrá hringrás sjávar á öllum dýptarstigum hefur verið komið fyrir á 25 stöðum í sunnanverðu Atlantshafi. Næstu fjögur ár eða svo ættu að segja nánar til um breytingar á Golfstraumnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×