Erlent

Sjö hundruð á sjúkrahús vegna kuldanna

MYND/AP

Sjö hundruð manns hafa verið fluttir fárveikir á sjúkrahús á veturbörðum hamfarasvæðunum í Pakistan. Átta manns hafa þegar fallið af völdum vetrarkuldanna við Himalaja-fjallgarðinn.

Enn skortir sárlega neyðarskýli sem standast hinn harða vetur á jarðskjálftasvæðunum. Stjórnvöld í Pakistan gera sitt besta og undanfarna daga hafa nokkur þúsund skýli bæst við. En það er bara ekki nóg, enda misstu vel á fjórðu milljón manna heimili sín í hamförunum. Strax á fyrstu dögunum eftir skjálftann var varað við því að tugþúsundir manna myndu látast þegar hinn harði vetur skylli á ef ekki yrði brugðist við hið snarasta. Það er fyrst í þessari viku afleiðingar vetrarins eru að koma í ljós.

Fyrstu fórnarlömb kuldanna féllu um helgina og undanfarna tvo daga hafa svo sex bæst við. Sjö hundruð manns liggja á sjúkrahúsum, með niðurgang, lágan líkamshita og öndunarfærasjúkdóma. Mörgum er vart hugað líf.

En þrátt fyrir þetta eru hjálparstarfsmenn bjartsýnir og segja að undanfarið hafi alþjóðasamfélagið tekið við sér. Talsmaður Sameinuðu Þjóðanna á svæðinu segir flest benda til að dauðsföll af völdum kuldanna verði mun færri en óttast hefur verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×