Innlent

Tóku áfengi sem átti að farga

Starfsmenn vörumiðstöðvar Samskipa stálu áfengi sem átti að farga. Starfsmennirnir fjórir voru reknir.
Starfsmenn vörumiðstöðvar Samskipa stálu áfengi sem átti að farga. Starfsmennirnir fjórir voru reknir.

Fjórum starfsmönnum vöru­miðstöðvar Samskipa hefur verið sagt upp störfum fyrir að stela áfengi sem átti að farga. Björgvin Jón Bjarnason, fram­kvæmda­stjóri innan­landssviðs Sam­skipa, segir málið hið raunalegasta, en eftir að afbrotin uppgötvuðust sagði fólkið upp og lét af störfum á föstudag og um helgina.

Lögregla rannsakar nú þjófnaðinn, en hann var upplýstur með aðstoð hennar og tollayfirvalda. Ekki liggur fyrir hversu umfangsmikill þjófnaðurinn var, en Björgvin telur þó að ekki hafi verið um mikið magn að ræða. Hann segir upp hafa komist um málið vegna þess að auga sé haft með svo viðkvæmum innflutningi, en ekki vegna þess að merkja hefði mátt aukningu í förgun áfengis.

"En förgun getur verið vegna beyglaðra dósa, skemmda á umbúðum, til dæmis utan um kassavín, eða vegna þess að vara reynist útrunnin," segir hann. Fólkið sem hætti starfaði saman á sömu deild og sagði Björgvin ákveðna eftirsjá af því, enda um góða starfsmenn til margra ára að ræða.

"Þarna var verið að farga víni og fólki finnst kannski að vara sem búið er að afskrifa sé komin á eitthvert einskismannsland, en svo er náttúrlega alls ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×