Fjölmiðlar í löndum jafn fjarri okkur og Ástralíu og Katar við Persaflóa sögðu fréttir af kvennafrídeginum á Íslandi. Gulf Times í Katar og The Australian, stærsta dagblað Ástralíu, sögðu frá því að tugþúsundir íslenskra kvenna hefðu yfirgefið störf sín til þess að mótmæla kynbundnum launamuni í landinu.
Í vefútgáfu breska dagblaðsins The Times kom fram að íslenskar konur hefðu farið í krossferð um Reykjavík og aðra bæi landsins, barið potta og pönnur og kallað slagorð á borð við "Konur höfum hátt!" og "Jafnrétti strax!".
Fjölmiðlar sögðu frá kvennafrídeginum fyrir þrjátíu árum og áhrifum hans á jafnréttisbaráttuna á Íslandi á þeim tíma. The Times Online sagði að kvennafundurinn 1975 hefði markað tímamót í jafnréttisbaráttunni í heiminum og hrist upp samfélagi allra Norðurlandanna. Þá segir að fundurinn hafi plægt leiðina fyrir Vigdísi Finnbogadóttur, sem fimm árum síðar varð þjóðkjörinn forseti fyrst kvenna í heiminum.