Erlent

Lítið traust borið til Howard

"Afrek Howards var að byggja sér upp orðstír stjórnmálamanns sem kjósendum gæti líkað enn verr við en Tony Blair." Þetta var dómur leiðaragreinar í The Times í gær yfir frammistöðu Michaels Howard, leiðtoga Íhaldsflokksins, í kosningabaráttunni. Um fjörutíu milljónir brezkra kjósenda voru í gær kallaðir að kjörborðinu í 645 kjördæmum til að kjósa nýtt þing eftir átta ára stjórnarsetu Verkamannaflokksins undir forystu Tony Blair. Þrátt fyrir megna óánægju margra kjósenda úr öllum flokkum með það hvernig Blair leiddi Breta til þátttöku í Íraksstríðinu - stuðningsfólki Verkamannaflokksins var boðið upp á nefklemmur til að mæta með á kjörstað - bentu allar skoðanakannanir til að hann myndi halda öruggum þingmeirihluta þriðja kjörtímabilið í röð. Þær bentu jafnframt til að þetta yrðu fyrstu kosningarnar frá því árið 1974 sem flokkur fengi öruggan meirihluta þingsæta út á innan við fjörutíu af hundraði greiddra atkvæða. "Eins og í síðustu tvennum kosningum mun kosningakerfið tvímælalaust hjálpa Verkamannaflokknum en gera Íhaldsflokknum og þó sérstaklega Frjálslyndum demókrötum erfitt fyrir," segir Daily Telegraph. Þrátt fyrir að reiknað væri með því að Íhaldsflokkurinn tapaði stórt hefur Michael Howard sagzt munu halda áfram, óháð úrslitunum, enda vilja íhaldsmenn forðast að lenda strax í kjölfar kosninganna í hörðum leiðtogaslag, þeim fjórða á átta árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×