Sport

Savic fór á kostum í markinu

Völlurin í Keflavík var blautur og þungur þegar Keflavík og Grindavík gerðu jafntefli í Bítlabænum, 1-1. Þrátt fyrir þyngslin var fjör í leiknum og bæði lið gerðu sitt besta til að spila sóknarbolta. Grindavík braut ísinn með marki Kekic en heimamenn létu það ekki á sig fá og Hörður jafnaði metin með laglegu marki skömmu síðar. Fyrstu 20 mínútur leiksins voru mjög fjörugar en leikmenn slökuðu aðeins á klónni eftir mörkin. Helst komu færi þegar leikmenn misstu boltann klaufalega í bleytunni og fékk Grindavík ótrúlegt færi á 43. mínútu sem þeim tókst ekki að nýta. Gestirnir urðu síðan fyrir áfalli rétt fyrir hlé þegar Eyþór Atli fékk sitt annað gula og þar með það rauða. Eyþór hefði hæglega getað forðast bæði spjöldin en klaufalegar athafnir hans verðskulduðu lítið annað en rautt spjald. Síðari hálfleikur var kaflaskiptur. Keflavík réð ferðinni framan af en eftir að Sinisa Kekic færði sig aftur á miðjuna tók Grindavík öll völd á vellinum, sótti grimmt og komst nálægt því að skora. Síðustu mínútur leiksins voru aftur á móti eign heimamanna enda voru Grindvíkingar þá manni færri og gáfu allt til þess að halda í stigið. Stigið fengu þeir þótt Keflavík hafi verið klaufar undir lokin enda fengu þeir víti og nokkur ákjósanleg færi. Það var sama hvað þeir reyndu, allt varði Savic og sérstaklega var vítaspyrnan vel varin hjá honum. Þegar upp var staðið var sanngjarnt að liðin skildu skipta með sér stigunum í þessum fjöruga leik í vætunni í Keflavík. Gestirnir fá sérstakt hrós fyrir mikinn karakter sem getur hæglega bjargað þeim frá falli í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×