Innlent

Áströskunartilfellum fjölgar mikið

Anorexíutilfellum hefur fjölgað um 50 prósent milli ára síðustu árin. Ekkert fjármagn er beinlínis ætlað í meðferð átröskunarsjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Aðeins eitt sjúkrarúm er ætlað átröskunarsjúklingum á Landspítala háskólasjúkrahúsi og aðeins veikustu sjúklingarnir eru lagðir inn. Edda Ýrr Einarsdóttir, formaður Forma - nýstofnaðra samtaka sem vinna að bættum hagsmunum átröskunarsjúklinga, segir aukninguna á sjúkdómstilfellum hroðalega, en 50 prósenta aukning hafi orðið á milli ára síðustu þrjú ár. Engar tölfræðilegar upplýsingar hafi verið til um átröskun en upplýsingar hafi fengist hjá aðilum á Landspítalanum og Speglinum. Forma hefur verið í samvinnu við Spegilinn sem eru samtök aðstandenda átröskunarsjúklinga á Íslandi. Fyrir nokkrum árum greindust aðeins eitt til þrjú átröskunartilfelli á ári en það hefur gerbreyst. Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur segir að þar komi tvennt til, annaðhvort sé tíðni sjúkdómsins að aukast eða að sjúklingar komi nú í auknum mæli úr felum. Ekki sé samstaða um það meðal sérfræðinga hvor ástæðan skipti meira máli. Sigrún segir jafnframt að kerfið sé illa í stakk búið til að taka átröskunarsjúklinga í meðferð en engir peningar séu sérstaklega eyrnamerktir í þetta verkefni og aðeins eitt sjúkrarúm á Landspítala - háskólasjúkrahúsi sé ætlað þessum sjúklingum. Þangað komi aðeins þeir veikustu inn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×