Innlent

Ánægja með Menningarnótt

Mikill meirihluti Reykvíkinga er sáttur við Menningarnótt eins og hún hefur verið haldin, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Rúm 74 prósent þerira sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu að Menningarnótt ætti að halda að ári, með svipuðu sniði og nú var gert. Rúm 25 prósent töldu að einhverjar breytingar ætti að gera. Helst var nefnt að færa helstu atriði menningarnætur fyrr á daginn, eða halda menningarnótt á sunnudegi. Einnig var nefnt að efla löggæslu eftir að skipulagðri dagskrá lýkur. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík segir að alltaf sé hægt að fjölga lögreglumönnum, en það komi þó ekki í veg fyrir pústra. "Ég er á því að færa menningarnótt á sunnudag. Það er slæmt að tengjast inn á þennan laugardag, sem er síðasti laugardagurinn fyrir skólabyrjun." Könnun var gerð dagana 27. og 28. ágúst.Hringt var í 800 Reykvíkinga, skipt jafnt milli kynja og valið af handahófi úr þjóðskrá. Spurt var: "Á að halda Menningarnótt að ári með svipuðu sniði og nú var gert?" og tóku 94,4 prósent svarenda afstöðu til spurningarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×