Erlent

Þrílitað áróðursstríð

Ólga fer nú vaxandi í Ísrael vegna brottflutnings landnema frá Gaza-ströndinni sem hefjast á í ágúst. Enn sem komið er eru mótmælin þó að mestu friðsamleg. Í gær ollu andstæðingar brottflutningsins truflunum á umferð en þúsundir þeirra stilltu sér upp við helstu umferðaræðar landsins. Þeir sögðu þó að ekki væri meiningin að tefja vegfarendur heldur einungis að vekja athygli á málstað sínum. Þá komu húsatökumenn úr hópi andstæðinga brottflutningsins sér fyrir í rústum húsa landnema á Gaza sem herinn reif um helgina. Þegar hermenn reyndu að rýma rústirnar kom til lítilsháttar átaka við mótmælendurna. Íbúar í landinu hafa hins vegar helst orðið varir við mótmælin eftir að andstæðingar og stuðningsmenn brottflutningsins tóku að hengja borða út um allt, á bíla, fatnað og ljósastaura svo dæmi séu tekin. Appelsínugulur er einkennislitur þeirra sem leggjast gegn brottflutningnum en þeir sem eru honum hlynntir skrýðast bláu og hvítu. Litirnir eru þegar orðnir stórpólitískir, til dæmis var sendinefnd indverskra þingmanna beðin um að taka niður appelsínugula trefla sína á dögunum til að styggja engan. Sjálfur brottflutningurinn hefst svo um miðjan ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×