Erlent

Áfrýjar dómi í hópnauðgunarmáli

Mukhtaran Mai, pakistanska konan sem var nauðgað af hópi karlmanna árið 2002 eftir skipun öldungaráðs í þorpinu hennar, áfrýjaði í dag máli sínu til hæstaréttar. Hún segist vonast til að hæstiréttur staðfesti upphaflegan dauðadóm yfir sex mannanna. Mál Mai hefur vakið mikla alþjóðlega athygli, enda fátítt að konur í Pakistan þori að rísa upp gegn feðraveldinu sem þar ríkir. Öldungaráðið í þorpi fjölskyldunnar fyrirskipaði hópnauðgunina sem hefnd fyrir að þrettán ára bróðir Mai hafði sést með konu af æðri ættbálki. Mai ákvað að láta þetta ekki yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust og kærði fjórtán menn fyrir nauðgunina og skipulagningu hennar. Héraðsdómur dæmdi sex þeirra til dauða en sýknaði átta. Mennirnir áfrýjuðu dóminum til undirréttar í Punjab-héraði og þar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að sönnunargögn væru ekki næg, sýknaði fimm menn í viðbót og breytti dómi þess sjötta í lífstíðarfangelsi. Þeim dómi hefur Mai áfrýjað til hæstaréttar Pakistans sem er æðsta dómstigið. Mannréttindasamtök hafa fylgst vel með máli Mai sem þykir varpa ljósi á stöðu kvenna í hinum dreifðu byggðum Pakistans þar sem feðraveldið ríkir enn utan opinbera dómskerfisins. Mai var boðið til Bandaríkjanna til að halda fyrirlestur en ríkisstjórnin bannaði henni að fara og tók af henni vegabréfið. Forseti Pakistans, Pervez Musharraf, hefur áhyggjur af því að mál Mai sýni Pakistan í slæmu ljósi. Hann hefur viljað kynna Pakistan sem framsækið, nútímalegt múslimaríki. Eftir mikil mótmæli bandarískra embættismanna og mannréttindasamtaka var ferðabannið afturkallað en Mai hefur ákveðið að bíða með öll ferðalög þar til úrskurður hæstaréttar liggur fyrir. Ekki er vitað hversu langan tíma réttarhöldin muni taka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×