Innlent

Gerir lítið úr rangfærslum

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, gerir lítið úr rangfærslu í Íslenskum samtíðarmönnum um að Gísli Marteinn Baldursson hafi lokið BA-prófi og segir hana engu skipta. Engar reglur eru til í Háskóla Íslands um viðbrögð, þegar nemendur hans lýsa því ranglega yfir að þeir hafi lokið háskólaprófi. Gísli Marteinn Baldursson, sem sækist eftir metorðum hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, gaf ranglega upp í Íslenskum samtíðarmönnum að hann hefði lokið BA prófi í stjórnmálafræði árið 2002. Í orðsendingu frá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessor, á heimasíðu Össurar Skarphéðinssonar, alþingismanns, segir að Gísli Marteinn hafi fyrir löngu lokið BA ritgerð sinni, en eigi eftir eitt eða tvö próf í einhverjum smágreinum; þær séu hins vegar ekki kenndar lengur og því hafi hann orðið að semja við kennara sína um námslok. Rangfærslurnar í Íslenskum samtíðarmönnum kallar Hannes Hólmsteinn smávægilega vanrækslusynd sem skipti engu máli. Háskóli Íslands veitir ekki upplýsingar um hvað Gísli Marteinn á ólokið í námi sínu. Persónuvernd geri athugasemdir við að slíkum upplýsingum sé miðlað um þá sem ekki hafa brautskráðst. Ólafur Þ. Harðarson, deildarforseti félagsvísindadeildar háskólans, segir spurður um hugsanleg viðbrögð háskólans að honum sé ekki kunnugt um að neinar reglur hafi verið settar um slík mál né heldur að það hafi verið rætt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×