Erlent

Hópslagsmál í réttarsal í Haifa

Mikil hópslagsmál brutust út í réttarsal í borginni Haifa í Ísrael um helgina. Tvær fjölskyldur slógust með öllu sem hönd á festi. Það voru öryggismyndavélar í réttarsalnum sem náðu myndum af slagsmálunum. Verið var að fjalla um morðmál þar sem tvær fjölskyldur komu við sögu. Mikil reiði ólgaði í báðum fjölskyldunum og fyrr en varði misstu þær stjórn á sér og byrjuðu að slást. Og menn létu ekki nægja að beita hnúum og hnefum heldur var allt lauslegt rifið upp, svo sem stólar og bekkir, og því grýtti fólkið hvert í annað. Konur gengu ekki síður rösklega fram í þessum atgangi en karlarnir. Dómarinn sá sér þann kostin vænstan að flýja af hólmi og kalla til öryggisverði. Þeir reyndu að stilla til friðar en um leið og þeir voru búnir að koma einhverjum óeirðaseggnum í gólfið réðst einhver úr fjölskyldu hans á þá til þess að frelsa hann. Slagsmálin stóðu því drjúga stund en ekki urðu nein alvarleg meiðsl á fólki. Hins vegar voru tveir menn handteknir. Ekki er ákveðið hvenær réttarhöldin hefjast á nýjan leik en það er nokkuð víst að þá verður meiri öryggisgæsla í dómsalnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×