Innlent

Tilkynnt um blaðamannaverðlaun

Dómnefnd Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands hefur komist að niðurstöðu um tilnefningar til verðlaunanna fyrir árið 2004. Þrjár tilnefningar eru í hverjum flokki fyrir sig og verður tilkynnt um sigurvegara á Pressuballi sem haldið verður næstkomandi laugardag. Í flokknum Rannsóknarblaðamennska ársins eru tilnefndir Kristinn Hrafnsson,  DV, fyrir upplýsandi fréttir af örlögum íslensks drengs, Arons Pálma Ágústssonar, í fangelsi í Texas; Ómar Þ. Ragnarsson, RÚV - fréttastofu Sjónvarps, fyrir að draga fram ný og óvænt sjónarhorn um umhverfisáhrif stórvirkjunar við Kárahnjúka og Páll Benediktsson, RÚV - Í brennidepli, fyrir umfjöllun um samfélag dósasafnara í Reykjavík. Fyrir bestu umfjöllun ársins eru tilnefnd Bergljót Baldursdóttir, RÚV - fréttastofu Útvarps, Morgunvaktinni, fyrir ítarlega og fróðlega úttekt á stöðu og velferð aldraðra; Davíð Logi Sigurðsson, Morgunblaðinu, fyrir skrif sín af vettvangi stríðsátaka í Írak og innsýn í daglegt líf fólksins þar og Þórhallur Jósepsson, RÚV - fréttastofu Útvarps, fyrir umfjöllun um Impregilo og starfsmannamál þess við Kárahnjúka. Þrír blaðamenn eru tilnefndir til Blaðamannaverðlauna ársins 2004. Það eru Árni Þórarinsson, Morgunblaðinu, fyrir ítarlega og greinargóða fréttaskýringu um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar í aðdraganda forsetakosninganna sl. sumar, Gunnar Hersveinn, Morgunblaðinu/19. júní, fyrir athyglisverð skrif um mannlíf á sviði jafnréttis-, uppeldis- og menntamála og Sigríður D. Auðunsdóttir, Fréttablaðinu, fyrir vandaðar og ítarlegar úttektir sem settar eru fram á myndrænan og skýran hátt. Í dómnefnd sátu Birgir Guðmundsson, formaður, Elín Albertsdóttir, Lúðvík Geirsson og Jóhannes Tómasson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×