Innlent

Réttargeðdeildin á Sogni yfirfull

Karlmaður á fertugsaldri sem fundinn var ósakhæfur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrradag er nú vistaður í herbergi á réttargeðdeildinni á Sogni. Það er alla jafnað er notað fyrir heimsóknir, kennslu og viðtöl. Deildin er yfirfull, að sögn Magnúsar Skúlasonar yfirlæknis og því varð að grípa til þessa ráðs. "Það var sett rúm inn í þetta herbergi, þannig að starfsemin sem verið hefur í því verður flutt eitthvað annað," segir Magnús. Hann bætir við að viðtöl og kennsla sem fram hefði farið í herberginu verði væntanlega flutt í litla skrifstofubyggingu við hlið réttargeðdeildarinnar. "Meðan þetta er svona verðum við líklega að leyfa heimsóknir í setustofu eða finna aðrar lausnir," segir Magnús. "Við erum ekki spennt fyrir að þær verði leyfðar á herbergjum. Við höfum sótt um stækkun á deildinni til heilbrigðisráðuneytis, en höfum ekki fengið jákvætt svar enn." Sjö pláss eru á réttargeðdeildinni og er umræddur maður áttundi öryggisgæslusjúklingurinn á staðnum. Maðurinn sem vistaður er í heimsóknarherberginu á Sogni lagði í einelti prófessor í réttarlæknisfræði í Reykjavík. Veruleikabrenglun mannsins, sem geðlæknar báru fyrir dómi að haldinn væri svokallaðri kverúlantaparanoju, gerði það að verkum að hann taldi prófessorinn hluta af samsæri um að fara rangt með niðurstöður barnsfaðernismáls sem hann var beðinn um að skera úr um árið 2002. Eftir að hafa hótað prófessornum um tíma endaði hann á því að ráðast á hann að kvöldi föstudagsins 22. apríl í vor. Ekki náðist í gær í Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra vegna málsins, en hann var staddur við opnun jarðganga á Fáskrúðsfirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×