Innlent

Ósáttur við skipun Davíðs

"Ég er mjög ósáttur við þessi vinnubrögð og finnst þessi skipun mjög gagnrýniverð," segir Ágúst Einarsson deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands. "Að það skuli eina ferðina enn vera skipaður stjórnmálamaður í bankastjórastöðu í Seðlabankanum sem er að setjast í helgan stein. Ég var formaður bankaráðs Seðlabankans og sagði af mér þegar Steingrímur Hermannsson var skipaður við samskonar aðstæður og Davíð Odsson núna," segir Ágúst. "Það gerðist fyrir rúmum tíu árum og ég hélt að við hefðum lært betri vinnubrögð en svo virðist ekki vera. Staða seðlabankastjóra er sérhæft verkefni á sviði peningamála og þeir sem gegna henni verða að hafa faglegar forsendur til þess. Svo var ekki í tilviki Steingríms Hermannssonar á sínum tíma og er ekki í tilviki Davíðs Oddssonar núna," segir Ágúst. Aðspurður segir hann pólitískar ráðningar vitaskuld skaða ímynd Seðlabankans. "Þetta eru vinnubrögð sem þekkjast ekki í nálægum löndum og eru ekki dæmi um góða efnahagsstjórnun eða hegðun af hálfu stjórnvalda. Vvið erum einfaldlega ekki komin lengra í því að viðhafa eðlileg vinnubrögð þegar kemur að stjórnmálamönnunum sjálfum," segir Ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×