Erlent

Úrslitaáhrif veiðimanna og komma?

Hvalveiðimenn og kommúnistar gætu ráðið úrslitum um hverjir mynda næstu ríkisstjórn í Noregi. Gengið verður til kosninga þar á sunnudaginn kemur. Fylgi stóru fylkinganna í norskum stjórnmálum er hnífjafnt, samkvæmt nýrri könnun Aftenposten. Stjórnarflokkarnir fengju áttatíu og fjögur sæti samkvæmt könnuninni og vantar þannig eitt til að ná meirihluta. Rauð-græna bandalag stjórnarandstöðuflokkanna fengi hins vegar áttatíu og tvö sæti. Miðað við þetta gæti gengi tveggja smáflokka ráðið úrslitum, og því gæti það fallið annað hvort kommúnistum eða hvalveiðisinnum í skaut að veita annarri hvorri fylkingunni meirihluta. Önnur könnun, sem gerð var fyrir Verdens Gang bendir til þess að stjórnarflokkarnir nái áttatíu og fimm þingsætum og þar með naumum meirihluta á þingi. Þetta þýddi að fengi Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra, hefði stórbatnað á fáeinum dögum en talið hefur verið víst um hríð að stjórnarflokkarnir myndu tapa völdum og Bondevik víkja fyrir Jens Stoltenberg, formanni Verkamannaflokksins. Stoltenberg kennir sósíalistum um að stjórnarandstaðan hefur dalað og segir flokkinn hafa staðið sig illa í kosningabaráttunni. Talið er að góðar fréttir af efnahag Noregs og niðurstaða lífsgæðakönnunar Sameinuðu þjóðanna, þar sem Noregur var krýndur það land sem best væri að búa í, hafi haft góð áhrif á fylgi Bondevik og stjórnarflokkana. Megin kosningamálið er hvernig fara eigi með olíuauð Norðmanna. Stjórnarandstaðan sakar ríkisstjórnina um að lækka skatta fyrir þá efnameiri og vill frekar leggja meira til velferðarmála. Bondevik hefur svarað þessu með því að saka stjórnarandstöðuflokkana um að vilja eyða auðnum, hækka skatta og valda vaxtahækkunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×