Innlent

Páfagarður harmar aftöku Stanley W. Tookie

Páfagarður harmaði í dag að morðinginn Stanley Tookie Williams skyldi hafa verið tekinn af lífi í Bandaríkjunum. Fjölmargir aðrir hafa fordæmt aftökuna, en Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, neitaði að náða Tookie.

Stanley Tookie Williams var annar af stofnendum Crips glæpaklíkunnar sem ber ábyrgð á nánast óteljandi morðum, í Bandaríkjunum, undanfarna áratugi. Klíkan hefur aðal tekjur sínar af eiturlyfjasölu.

Williams var sakfelldur og dæmdur til dauða fyrir fjögur morð árið 1979. Fyrsta morðið framdi hann í 7-11 verslun, þar sem hann rændi eitthundrað og tuttugu dollurum. Hann skaut til bana unglingspilt sem var við afgreiðslu í versluninni, þar sem hann lá á grúfu, á gólfinu.

Tveim vikum síðar skaut hann til bana öldruð hjón, innflytjendur frá Tævan, sem ráku lítið vegahótel. Hann skaut einnig til bana dóttur þeirra, sem var í heimsókn hjá foreldrum sínum. Uppúr því hafði hann eitthundrað dollara.

Williams viðurkenndi aldrei sekt sína, og í fangelsi skrifaði hann bækur fyrir unglinga, þar sem hann afneitaði glæpagengjum og varaði við aðild að þeim.

Fjölmargir urðu til þess að biðja Williams miskunnar, bæði innan Bandaríkjanna og utan. Aftakan hefur verið fordæmd, meðal annars í Páfagarði.

Mikill mannfjöldi safnaðist saman við San Quentin fangelsið, þegar Stanley Williams var tekinn af lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×