Erlent

Þingkosningar í janúar

Mahmoud Abbas, forseti Palestínsku heimastjórnarinnar, lofaði í gær að þingkosningar færu fram í janúar. Hann hvatti Palestínumenn til að halda ró sinni þegar brottflutningur ísraelskra landnema frá Gaza-ströndinni hefst í næstu viku. Róstusamt hefur verið á Gaza að undanförnu vegna brottflutningsins, bæði í röðum Ísraela og Palestínumanna, og er búist við að ólgan muni stigmagnast á næstu dögum. Í ræðu á þinginu í gær hvatti Abbas landa sína til að sýna stillingu þegar flutningarnir hæfust. Beindi hann orðum sínum sérstaklega til herskárra uppreisnarmanna sem hafa skotið eldflaugum að landnemabyggðunum, þrátt fyrir vopnahléssamninginn. Í ræðu sinni lofaði Abbas að boða til þingkosninga í janúar næstkomandi, án þess að tiltaka sérstaka dagssetningu í þeim efnum. Kosningarnar áttu raunar að vera haldnar þann 17. júlí síðastliðinn en Abbas ákvað að fresta þeim að eigin sögn vegna brottflutningsins frá Gaza. Andstæðingar hans telja aftur á móti að frestunin hafi helgast af slæmri stöðu Fatah-hreyfingar forsetans vegna spillingarmála. Hamas-hreyfingin hefur þegar sagst ætla að taka þátt í janúarkosningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×