Erlent

Abbas tilkynnir kosningar

Mahmoud Abbas, forsætisráðherra Palestínu, greindi frá því í morgun að þingkosningar yrðu haldnar á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna í janúar. En engin dagsetning hefur þó verið ákveðin enn. Tveir mánuðir eru síðan að Abbas frestaði kosningum sem áttu að fara fram þann sautjánda júlí síðast liðinn og bar hann fyrir sig að ekki hefði tekist að gera nauðsynlegar umbætur á kosningalögum. Þær umbætur eru síðan gengnar í gegn og Abbas vill því blása til kosninga. Töluverður þrýstingur hefur verið á Abbas að efna til þeirra, bæði frá alþjóðasamfélaginu og svo hreyfingum á borð við Hamas, sem sakaði Abbas um að reyna að vinna tíma til að bæta fylgi Fatah-hreyfingarinnar sem hann leiðir. Talsmenn Hamas hafa hins vegar staðfest að hreyfingin muni taka þátt í kosningunum í janúar, en Abbas hefur lagt áherslu á að sem flestar harðlínu- og öfgahreyfingar taki þátt í lýðræðislegum kosningum og þar með í friðarferlinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×