Innlent

Bjórblaðið þjónusta við lesendur

Forsvarsmenn Blaðsins segja í leiðara í dag að sérstakt aukablað þeirra um bjór, sem brýtur væntanlega í bága við lög um áfengisauglýsingar, sé til að þjónusta lesendur. Erlendir miðlar hafi forskot á íslenska í tekjuöflun með áfengisauglýsingum og útgáfa aukablaðsins sýni líka þá hræsni sem í auglýsingabanninu felst. Ríkið sjálft á stærstu auglýsinguna í Blaðinu. Í Blaðinu í dag er sérstakt aukablað um bjór og léttvín. Rafn M. Jónsson, fostöðumaður áfengis- og vímuvarna hjá Lýðheilsustöð segir útgáfu aukablaðsins skýrt brot á lögum um auglýsingar á áfengi, auk þess sem umfjallanir um bjór í blaðinu séu á gráu svæði að hans mati. Hann segir áfengisauglýsingar í eðli sínu miða að því að auka neyslu áfengis, að öðrum kosti væru auglýsendur ekki að leggja háar fjárhæðir í þær. Heilbrigðisáætlanir gerðu ráð fyrir því að minnka neyslu á áfengi. Rafn segir að ekki væri gerður greinamunur á ríki og einkaaðilum í lögunum. Því hljóti að vera hægt að gera þær kröfur að ríkið sjálft brjóti ekki vísvitandi lög eins og þarna sé gert. Einar Einarsson, framkæmdastjóri sölu- og markaðsviðs Vínbúðanna, vísar þessu á bug og segir Vínbúðirnar ekki brjóta lög þar sem ekki sé verið að auglýsa ákveðnar tegundir bjórs heldur bjórhátíð sem Vínbúðirnar standi fyrir. Hann hafnar því ennfremur að markmiðið sé að auka sölu áfengis með auglýsingunum. Eingöngu sé verið að benda fólki á að fleiri tegundir og gerðir öls en venjulega væru keyptar. Aðspurður um hvort það þýddi ekki að verið værið að reyna að auka sölu þeirra tegunda með auglýsingunum sagði hann svo ekki vera. Rétt er að taka fram að í auglýsingu ÁTVR, sem er ein fjölmargra auglýsinga í Bjórblaðinu, er hvergi minnst á fjölbreytt úrval bjórtegunda, eingöngu að bjórdagar gangi brátt í garð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×