Erlent

Hundruðum fanga sleppt

Ísraelar létu 398 palestínska fanga lausa í fyrradag. Þetta voru síðustu fangarnir af þeim 900 sem Ísraelar höfðu lofað að láta lausa eins og vopnahléssamkomulag þeirra við Palestínumenn kveður á um. Fangarnir voru allir vistaðir í fangelsi í suðurhluta Ísraels og voru ýmist fluttir á Vesturbakkann eða Gaza-ströndina. Ísraelar hafa löngum neitað að láta lausa þá fanga frá Palestínu sem ekki höfðu afplánað að minnsta kostir tvo þriðju refsingar sinnar. Nú er annað hljóð komið í strokkinn, en 93 þeirra fanga sem voru látnir lausir höfðu aðeins afplánað brot af refsitíma sínum. Sumir þeirra fanga sem látnir voru lausir voru dæmdir fyrir skotárásir, undirbúning sprengiárasa eða fyrir að aðstoða við morðtilraunir. Ísraelar lofuðu á leiðtogafundi í Egyptalandi í febrúar að láta 900 fanga lausa og var 500 sleppt úr haldi fljótlega eftir það. Palestínumenn gagnrýndu þá að flestir þeirra hefðu að mestu leyti verið búnir að sitja af sér dómana og því stutt í að þeir losnuðu úr haldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×