Erlent

Aukin áhætta tekin í flugi

Breskri júmbóþotu var flogið á þremur hreyflum átta þúsund kílómetra leið frá Los Angeles í Bandaríkjunum til Bretlands eftir að fjórði hreyfillinn bilaði í flugtaki. Flugvélin átti að lenda í London en þegar til Bretlands var komið var eldsneytið á þrotum og því lenti vélin í Manchester. Í breska blaðinu The Times er þess getið til að það hafi spilað inn í ákvörðun stjórnenda British Airways að halda fluginu áfram frekar en að lenda að flugfélagið hefði þurft að endurgreiða farþegum flugmiðana vegna tafa samkvæmt evrópskri reglugerð sem hafði nýlega tekið gildi. Samtök flugmanna hafa varað við því að reglugerðin yki líkur á að þrýst væri á flugmenn að taka aukna áhættu í farþegaflugi. Flugstjórinn hringsólaði nærri Los Angeles meðan yfirmenn hans tóku ákvörðun um að halda fluginu áfram. Flugvélin náði ekki venjulegri flughæð og brenndi eldsneyti því hraðar en venjulega. Stjórnendur British Airways sögðu í samtali við The Times að nýju reglurnar hefðu ekkert haft með ákvörðun sína að gera. Fljúga mætti þotunni á þremur hreyflum og tveimur ef nauðsyn krefði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×