Innlent

Varanleg kjaraskerðing?

Kjör í einstökum atvinnugreinum á höfuðborgarsvæðinu hafa rýrnað vegna innflutnings á ódýru erlendu vinnuafli og telja menn innan verkalýðshreyfingarinnar hættu á að til lengri tíma litið sé ljóst að þróunin leiði til varanlegrar skerðingar á launum og starfskjörum og aukins atvinnuleysis verði ekki gripið í taumana. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að þetta eigi einkum við um verkamenn og sérhæfða starfsmenn í byggingavinnu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta geti líka átt við um ýmis þjónustustörf og ferðaþjónustu en ekki séu jafn ljósar vísbendingar um það. Innan verkalýðshreyfingarinnar er fullyrt að sú þróun að ráða til starfa útlendinga á lakari launum og við verri starfskjör en ríkja almennt hafi haft beina þýðingu fyrir launaþróun í greinum þar sem innfluttu starfsmennirnir eru flestir. Þannig hefur eftirspurn eftir vinnuafli ekki leitt til bættra kjara heldur hafa kjörin frekar rýrnað. Stór hluti útlendinga, sem koma til starfa hér á landi á vegum erlendra starfsmannaleigna og þjónustusamninga, er á lakari launum og búa við verri starfskjör en gilda hér á landi. Talið er að margir þeirra sem koma á grundvelli þjónustusamninga njóti ekki lágmarkskjara samkvæmt lögum og kjarasamningum og búa í lélegu húsnæði, hjólhýsum, gámum, verksmiðjuhúsnæði og á vinnustöðum í nýbyggingum. Skattar og opinber gjöld eru ekki greidd af þessari starfsemi og er ljóst að ríkið verður af verulegum tekjum, annars vegar vegna undanskota frá skatti í framhaldi af viðskiptum við starfsmannaleigur og hins vegar vegna þeirra sem starfa alveg svart. Talið er að upphæðin nemi tugum og jafnvel hundruðum milljóna króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×