Erlent

Verða að yfirvinna óttann

Neyðin veldur því að fiskimenn á Srí Lanka yfirvinna óttann við hafið sem þeir finna fyrir í kjölfar flóðbylgjunnar annan dag jóla. Enn eru víða rústir og drulla og hjálpin berst hægt.  Það eru liðnir rétt um tveir mánuðir frá hamförunum í Suðaustur-Asíu en enn er langt í land með að lífið þar komist í samt lag. Á Srí Lanka er ástandið til að mynda ennþá víða bágborið, aðstoð berst hægt þrátt fyrir nægar fjárveitingar og að samgöngur þar séu í góðu lagi. Lestarsamgöngur eru hafnar aftur en flóðbylgjan þeytti lestum langt inn á land og lestarteinarnir voru undnir eins og spottar eftir kraft hennar. Í þorpinu Katugoda á suðurströnd landsins er unnið að því að hreinsa rusl en víða eru sprottin upp hús þar sem áður voru aðeins frumstæð tjöld. Um alla eyjuna geta foreldrar sagt sögur af barnamissi og börn leita foreldra sinna. Á austurströndinni, sem varð langverst úti og þar sem þúsundir fiskimanna hurfu, fikra þeir sem lifðu af sig nú niður á strönd en margir fiskimenn óttuðust hafið eftir hamfarirnar. Stjórnvöld vilja einnig að fólk byggi híbýli sín fjær ströndinni en áður en fólkið segist verða að sækja sér björg í bú á hafi úti. En flestir bátarnir hurfu og netin eru í hönk svo að víða þurfa jafnvel tíu fjölskyldur að skipta með sér einum bát. Fiskimennirnir segja að þannig geti þeir ekki lifað af til langframa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×