Erlent

Tvær milljónir flýðu heimili sín

Hátt í tvær milljónir einstaklinga þurftu að yfirgefa heimili sín í strandbyggðum Flórída og Alabama þegar fellibylurinn Dennis gekk yfir og olli miklum skemmdum. Fellibylurinn fór yfir á sama stað og fellibylurinn Ivan olli miklum skemmdum fyrir innan við ári síðan. Skaðinn þá var svo mikill að enn er ekki búið að byggja upp allt sem eyddist þá. "Ég hef fylgst með fellibyljum alla ævi og þessi hefur yfir sér svip sem er ekki beint vinalegur," sagði Bill Gray þegar hann og fjölskylda hans mættu í neyðarmiðstöð sem komið var upp í Pensacola. Sums staðar á hamfarasvæðunum brugðust lögreglumenn ekki við hjálparbeiðnum nema þær væru upp á líf og dauða, þetta var gert þar sem of hættulegt þótti að fara úr húsi. Bandaríkjamenn sluppu þó betur en á horfðist á tímabili. Vindhviðurnar náðu 233 kílómetra hraða á klukkustund á Mexíkóflóa en voru komnar undir 200 kílómetra hraða þegar fellibylurinn kom yfir landið. Fellibylurinn Dennis hafði þegar valdið dauða minnst tuttugu einstaklinga á Karíbahafi. Tíu létust á Kúbu og í það minnsta jafn margir þegar fellibylurinn reið yfir Haítí.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×