Erlent

Fellibylurinn Dennis í hámarki

Nærri einni og hálfri milljón hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín við Mexíkó-flóa í Bandaríkjunum, en hann hefur dýpkað mjög og er óttast að hann geti valdið gríðarlegri eyðileggingu. Dennis er sem stendur á ferð yfir Mexíkó-flóa, þar sem hlýr sjór hefur valdið því að Dennis hefur dýpkað mjög og hefur náð styrkleika fjögur á mælikvarða sem nær upp í fimm. Meðalvindhraðinn mældist fyrir stundu sextíu og fjórir metrar á sekúndu. Veðurfræðingar segja hann nú geta valdið gríðarlegri eyðileggingu. Fellibylur af þessu tagi getur valdið flóðum allt að tíu kílómetra frá ströndu á svæðum þar sem land er lágt. Fyrir vikið hefur nærri einni og hálfri milljón íbúa Flórída, Alabama og Missisippi verið ráðlagt að flýja heimili sín og gera ráðstafanir. Búist er við Dennis á land við strönd þessara ríkja seinna í dag, en þetta er sama svæði og varð mjög illa úti þegar fellibylurinn Ívan reið þar yfir í fyrrahaust. Skýstrókar orsökuðu minniháttar skemmdir við Tampa á Flórída og íbúar í Key West sluppu mun betur en leit úr fyrir á tímabili, en þrjátíu og tveir týndu lífi þegar Dennis gekk yfir Haítí og Kúbu í gær. Dennis er fyrsti Atlantshafs-stormurinn á þessu ári en aldrei fyrr, frá því að mælingar hófust árið 1851, hefur jafn öflugur fellibylur myndast svo snemma árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×