Erlent

Fjölamorðanna í Srebrenica minnst

Þúsundir múslíma í Bosníu röktu í dag slóð þeirra átta þúsund karla og drengja sem voru drepnir í bænum Srebrenica. Tíu árum eftir voðaverkin er biturð og reiði enn áberandi í Bosníu og íbúar þar segjast óttast að átök geti brotist út hvenær sem er. Íbúar bæjarins minnast fórnarlamba fjöldamorðsins þann ellefta júlí 1995. Átta þúsund eiginmenn, feður, bræður og synir voru drepnir þann dag, þegar hersveitir Bosníu-Serba gerðu áhlaup á bæinn, sem var verndarsvæði sveita Sameinuðu þjóðanna. Eftirlifendur sinna gröfunum þrettán hundruð sem fjölgar sífellt, eftir því sem fleiri fjölgagrafir finnast. Sjálfur bærinn er enn að hluta í rúst, minnismerki þess sem gerðist á hverju horni og það reynist eftirlifendum erfitt að gleyma og fyrirgefa. Omar Osmic, sonur eins fórnarlambsins, segir erfitt að útskýra og bendir á að þeir hafi veri manneskjur en ekki dýr. Eftirlifendunum svíður ekki síst að hershöfðingin sem stýrði þjóðarmorðinu, Ratko Mladic, er enn á lausu og fær eftirlaun í Serbíu. Forseti Bosníu-Serba, Radovan Karadzic, hefur ekki heldur náðst. Biturð og reiði einkenna ekki einungis Srebrenica; í  höfuðborginni Sarajevo er ástandið litlu betra. Þegar flogið er yfir borgina vekja skærrauð húsþök athygli. Þau eru öll ný, því þegar Serbar vörpuðu sprengjum á borgina lentu þær á þökunum og eyðilögðu. Húsin í Sarajevo hafa flest verið gerð upp. Norsk hjálparsamtök eyddu tíma og fé í að mála mörg þeirra í skærum og glaðlegum litum í von um að það hjálpaði til við að eyða minningunum um þessi voðaverk. En skotgötin á öðrum byggingum eru ennþá ofarlega í huga íbúa borgarinnar og þeir geta ekki gleymt leyniskyttunum sem skutu á allt kvikt á götum borgarinnar. Minnismerkin um ódæðisverkin í Srebrenica eru ekki síst fjöldagrafirnar, (LUM) en ein slík, með líkamsleifum allt að hundrað múslíma, fannst í bænum Budak, skammt frá Srebrenica nýlega. Talið er að serbneskir hermenn hafi drepið þá sem þar voru grafnir þegar þeir réðust á bæinn fyrir rétt um tíu árum. Alls hafa um sextíu fjöldagrafir fundist í námunda við Srebrenica.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×