Erlent

Beita hörku í New Orleans

MYND/AP
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa nú ákveðið að beita hörku til þess að fjarlægja þá sem enn þrjóskast við að yfirgefa New Orleans. Fram að þessu hefur verið reynt að tala fólk til. Nú þykir hætta á smitsjúkdómum orðin svo mikil að það verði að flytja það burt með góðu eða illu. Talið er að tíu þúsund manns séu enn í borginni og neiti að fara þaðan. Ray Nagin, borgarstjóri í New Orleans, segir að vatnið í borginni sé bráðmengað af úrgangi, olíu og svo líkum sem enn fljóta þar um götur. Því sé svo mikil hætta á farsóttum að ekki sé forsvaranlegt að láta íbúana vera þar áfram. Lögreglustjóri borgarinnar tekur í sama streng og segir að ef nauðsynlegt reynist muni þeir beita valdi til þess að flytja fólk á brott. Meðan þessi barátta fer fram í New Orleans geisar pólitískur stormur í Washington þar sem yfirvöld liggja undir harðri gagnrýni fyrir sein og slæleg viðbrögð við hörmungunum sem fellibylurinn Katrín olli. George Bush forseti lofar að málið verði rannsakað ofan í kjölinn en telur ekki rétt að vera að leita að blóraböggli á þessari stundu. Nú eigi að einbeita sér að því að hjálpa fórnarlömbum Katrínar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×