Erlent

Gleðipillur skemma tennur

Þunglyndislyf geta aukið hættuna á tannskemmdum. Í Danmörku eru dæmi um að fólk, sem tekur slík lyf, hafi fengið tíu holur í tennurnar á einu ári. Rúmlega þrjúhundruð og fjörutíu þúsund Danir sem taka þunglyndislyf eiga á hættu að fá fleiri holur í tennurnar. Ástæðan er að efni í lyfjunum lyfjunum minnka munnvatnsframleiðslu, en hlutverk munnvatnsins er meðal annars að skola sýklum út. Dagblaðið Berlingkse Tidende hefur í dag eftir prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, að þurr munnur þýði að bakteríur hafi allt að tíu sinum lengri tíma til að herja á tennur fólks. Með rannsóknum sínum hefur hann sýnt fram á að aukinn þurrkur í munni getur leitt til tannskemmda þrisvar til fjórum sinnum hraðar en ella. Dæmi eru um að fólk fái tíu holur á aðeins einu ári. Minni munnvatnsframleiðsla er algeng aukaverkun lyfja. Fólk sem tekur þrjú lyf eða fleiri að staðaldri, er í sérstakri hættu vegna aukinna tannskemmda. Og það á líka við þótt lyfin ein og sér hafi engin áhrif á tennurnar, saman geta þau myndað efnablöndu sem hefur þessi áhrif. Tannlæknar víða um Danmörku taka undir orð prófessorsins í Berlingske Tidende í dag, og benda á að læknar eigi vissulega að benda á þessar aukaverkanir. Annars sé sú vísa aldrei of oft kveðin að fólk eigi að bursta tennurnar, nota tannþráð og tyggja flúortyggjó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×