Innlent

Góð kjörsókn í kosningum í Írak í dag

Írakar flykktust á kjörstaði snemma í morgun og þegar komið varð að lokun áttu margir enn eftir að komast að. Ákveðið var að halda opnu í klukkustund til viðbótar um allt land og víða enn lengur. Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna tilkynnti nú undir kvöld að þátttaka hefði verið góð, fólk úr ýmsum hópum samfélagsins hefði mætt og öryggi kjörstaða hefði verið ágætt. Ekki væri hægt að segja annað en að kosningarnar hefðu gengið ágætlega. Jafnvel í bænum Tikrit, heimabæ Saddams Hussein, var góð kjörsókn.

Í kosningunum í janúar létu 40 manns lífið í sprengjutilræðum og öðru ofbeldi. Í dag létust tveir í árásum á kjörstaði í Mosul og Tal Afar í norðurhluta landsins. Það þykir ekki svo slæmt í Írak á venjulegum degi, hvað þá á kjördegi.

Kosið var til þings í fjögurra ára. Úrslit verða ekki ljós fyrr en eftir nokkra daga. Það að kosningarnar sjálfar fóru vel fram er hins vegar að minnsta kosti jafn mikilvægt fyrir framtíð Íraks og sjálf úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×