Innlent

Engin rækja í fyrsta sinn í hálfa öld

Engin rækja var veidd við Ísland í síðasta mánuði sem ekki hefur gerst í hálfa öld. Fyrir aðeins tíu árum slagaði aflaverðmæti rækju hátt upp í aflaverðmæti þorsksins og fjöldi skipa stundaði veiðarnar. Þannig skapaði rækjan næst mesta útflutningsverðmætið á eftir þorski árið 1995, eða þrjá fimmtu af verðmæti þorsksins, og atvinnulífið víða um land byggðist að verulegu leyti á rækjuveiðum og vinnslu, til dæmis á Ísafirði sem gjarnan var kallaður „rækjubærinn". Þar iðuðu bryggjurnar af mannlífi þegar rækjuflotinn kom í land á kvöldin og vaktavinna var í rækjuverksmiðjunum. Nú er þetta liðin tíð og staðreyndin er að engin rækja var dregin úr sjó á Íslandsmiðum í síðasta mánuði, hvorki inn á fjörðunum né á úthafinu. Afli á togtíma hefur hríðfallið síðustu misserin og skipin hætt eitt af öðru og fyrir fáeinum dögum var Þormóður Rammi á Siglufirði til dæmis að selja síðasta rækjutogara sinn úr landi. Ekkert er vitað hvenær, eða jafnvel hvort, rækjuafli glæðist við landið á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×