Innlent

Sendi ríkislögreglustjóra bréf varðandi fyrrum forstjóra Byggðastofnunar

MYND/GVA

Magnús Þór Guðmundsson, þingmaður Frjálslyndra, sendi ríkislögreglustjóra bréf þar sem hann bendir á ummæli Kristinn H. Gunnarssonar varðandi afglöp fyrrum forstjóra Byggðastofnunar í starfi. Magnús Þór telur að afglöpin varði við lög, eigi fullyrðingar Kristins við staðreynd að styðjast, og furðar sig á því að málið hafi ekki verið rannsakað af lögreglu á sínum tíma.

Samkvæmt Kristni átti fyrrum forstjórinn meðal annars að hafa selt hlutabréf í eigu Byggðastofnunar án vitundar stjórnarinnar, og ákveðið sjálfur hverjir fengu keypt og á hvaða verði. Þá hafi Byggðastofnun útvegað honum húsnæði og hafi hann átt að eiga 5% á móti 95% Byggðastofnunar í húsinu. Síðar hafi svo komið í ljós að hann hafi heimildalaust látið stofnunina borga sinn fimm prósent hlut. Eftir að málið komst upp var þessum fyrrverandi forstjóra Byggðastofnunar veittur 20 milljón króna starfslokasamningur.

Þá spyr Magnús Þór hvers vegna Kristinn H. Gunnarsson, þáverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, og Valgerður Sverrisdóttir, byggðamálaráðherra, hafi ekki gert neitt í málinu.

Aðspurður hvers vegna málið hafi ekki farið fyrir lögreglu á sínum tíma sagði Kristinn H. Gunnarsson að staðreyndir málsins hafi alltaf legið fyrir og að hann sjái ekki sérstaka ástæðu fyrir lögreglurannsókn á málinu, einstaklingar sem tengjast því verði einfaldlega að eiga þetta við sig.

 

Kynjamisrétti?

Magnús Þór bendir einnig á að fyrrverandi forstjóri Byggðastofnunar hafi verið leystur úr starfi með 20 milljón króna starfslokasamning eftir að hafa orðið upplýstur að mjög alvarlegum afglöpum í starfi. Á sama tíma hafi Valgerður H. Bjarnadóttur verið hrakin með sneypu og skömm úr starfi fyrir ásakanir sem reyndust ekki sannar. Hún hafi fengið sex mánaða biðlaun við starfslok.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×