Innlent

Misskildi sitt eigið frumvarp

Valgerður Sverrisdóttir
Valgerður Sverrisdóttir MYND/GVA

Iðnaðarráðherra segist hafa misskilið sitt eigið frumvarp um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það sé ekki rétt að handhafar rannsóknarleyfa á auðlindum í jörðu eigi að hafa forgang að virkjunarleyfi. Þingmaður Samfylkingarinnar segir að flokkurinn hefði stutt frumvarpið ef ákvæði um vilyrði ráðherra fyrir nýtingarleyfi hefði verið fellt brott.

Í tilkynningu frá Valgerði Sverrisdóttir sagði í dag að vegna ónákvæmra upplýsinga frá ráðuneytinu hefði miskilnings gætt um efni frumvarpsins, eða hugsanlegan forgang rannsóknarleyfishafa á útgáfu virkjunarleyfis. Ef marka má það sem Valgerður sagði sjálf í viðtali við NFS á lokadegi þingsins var það hún sem miskildi frumvarpið. Nú segir Valgerður að ónákvæmnin varði ákvæði um jarðvarma í auðlindalögunum.

Jóhann Ársælsson segir að Samfylkingin hefði verið tilbúin til að styðja frumvarpið ef ákvæði í fimmtru grein þess um vilyrði ráðherra fyrir nýtingarleyfum yrði fellt brott.

Valgerður Sverrisdóttir segir það séu alvarlegar rangfærslur að ekki verði gert ráð fyrir auðlindagjaldi. Landeigendum verði greitt fyrir land, annars vegar ef samningar náist eða í eignarnámi. Sé um að ræða nýtingu auðlinda á þjóðlendum verði greitt fyrir það samkvæmt lögum um þjóðlendur.

En hvorugt þessara atriða kemur í staðinn fyrir sérstakt auðlindagjald. Valgerður Sverrisdóttir bendir á að skipa eigi nefnd til að móta starfsreglur sem taki mið af tillögum auðlindanefndar. Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar segir útúrsnúninga að rugla saman greiðslum fyrir land og auðlindagjaldi. Ef frumvarpið hefði verið eins og ráðherrann greinilega hélt, það er að segja veitt ráðherra vald til að úthluta vilyrði fyrir virkjunarleyfum, hefði ekkert auðlindagjald verið innheimt því nefndin hafi ekki tekið til starfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×