Innlent

Jólin klámvædd í gosdrykkjaauglýsingu?

„Það vilja allar mömmur kyssa jólasveininn okkar." Þetta fullyrðir Ölgerðin í auglýsingu sem birst hefur í dagblöðum síðustu daga þar sem sjá má jólasvein með bera bringu, og konu krjúpandi við hlið sér. „Klámvæðing á jólunum," segja femínistar.

Auglýsingin sem um ræðir er blaðaauglýsing fyrir gosdrykkinn Pepsi Max sem Ölgerð Egils Skallagrímssonar framleiðir og fæddist hugmyndin að henni þar innanhúss. Hún hefur birst í Fréttablaðinu undanfarna daga og óhætt er að segja að þar gefi að líta jólasvein sem sé nokkuð kynþokkafyllri en þeir sem við eigum að venjast - í það minnsta fáklæddari. Konan á myndinni virðist svo vilja töluvert meira en mjúkan pakka frá sveinka.

Femínistum finnst auglýsingin ekki beint í anda jólanna. Hjálmar G. Sigmarsson hjá karlahópi Femínistafélagsins segir að með þessu sé verið að klámvæða jólin. Honum finnst auglýsingin kjánaleg og að í henni felist lítillækkun, ekki aðeins fyrir konur heldur fólk almennt.

Hörður Harðarson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, segist algjörlega ósammála því að verið sé að lítillækka fólk í auglýsingunni. Þarna sé einfaldlega myndarlegur jólasvein, t.a.m. laus við bumbuna sem sá ameríski skarti, og að konan vilji bara kyssa hann. Það sé ekkert óeðlilegt við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×